Samfélagssáttmáli um læsi

November 21, 2023
by
in news
No Comments
Samfélagssáttmáli um læsi

Samfélagssáttmáli um læsi

Þjóðin fær aðgang að einu helsta lestrarvopni Finna

Á mynd. F.v. Tryggvi Hjaltason, verkefnastjóri, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri menntamálastofnunar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, Védís Hervör Árnadóttir, forstöðumaður miðlunarsviðs SA, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, leikari, Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona, Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, læsisfræðingur, Birgir Örn Birgisson, stjórnarformaður Billboard og Vésteinn Gauti Hauksson, framkvæmdastjóri Billboard. Í bakgrunni má sjá meðlimi í Barnakór Ísaksskóla sem fengu leyfi til þess að vera með á myndinni. 

Lausn við vaxandi áskorun

Íslenskt atvinnulíf og samfélag á allt undir því að börnin okkar komi heilsteypt og full sjálfstrausts út úr menntagöngu sinni. Læsi er þar lykilbreyta. Tungumálið opnar dyr að menningu þjóða og hefur reynst lykilþáttur í inngildingu þeirra sem flytjast til Íslands. Rannsóknir sýna skýrt að menntatækni getur spilað stórt hlutverk í því að þróa einstaklingsmiðaðra nám sem eflir þekkingu og færni barna í máltjáningu og málskilningi samhliða lestrarkennslu. Þannig getum við byggt upp þá lestrarfærni sem velmegunarsamfélag eins og Ísland á að státa sig af.

Undanfarin ár hafa komið fram mælingar sem sýna vaxandi áskorun íslenskra barna þegar kemur að lestri og málskilningi. PISA niðurstöður sýna t.a.m. að 34,4% íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og nær fimmtungur stúlkna. Á þessu ári hefur verið umfangsmikil úttekt í gangi á vegum Menntamálaráðuneytisins um stöðu drengja í íslensku skólakerfi og eru heildarniðurstöður væntanlegar á næstu misserum. Samkvæmt Menntamálaráðuneytinu er ein lykilniðurstaða úr þeirri vinnu að íslensk börn, sérstaklega drengir, þurfi aukinn tungumálastuðning, þá helst á fyrstu árunum á menntagöngu sinni.

Því hefur verið unnið undanfarin misseri að staðfærslu á finnska lestrartölvuleiknum Graphogame sem hefur verið aðgengilegur öllum finnskum börnum undanfarin ár í lestrarnámi þeirra með góðum árangri. Leikurinn grípur börn í grunnundirstöðum lestrar, aðlagar sig að getustigi þeirra og hefur margsýnt virkni sína við að koma þeim börnum sem eru sein til læsis hratt á rétta leið. Því er það von aðstandenda verkefnisins að hér sé kærkomin viðbót í verkfærakistu þjóðarinnar til að efla læsi allra.

Því meðan til er böl
sem bætt þú gazt
og barizt var meðan hjá þú sazt,
er ólán heimsins einnig þér að kenna.

– Tómas Guðmundsson

Tryggvi Hjaltason

Forsprakki verkefnisins, Tryggvi Hjaltason, kynnti tilurð og framvindu þess í byrjun viku íslenskrar tungu

Leikurinn gjaldfrjáls í fimm ár

Tryggvi Hjaltason og Billboard ehf standa saman að útgáfu tölvuleiksins Graphogame í íslenskri útgáfu, sem verður gjaldfrjáls í fimm ár. Billboard fjármagnar verkefnið ásamt því að tryggja og viðhalda vitund almennings fyrir leiknum næstu fimm árin.

Graphogame hefur verið staðfært á 11 tungumál um allan heim og hlaut á dögunum UNESCO menntaverðlaunin fyrir afburðaárangur. Það þýðir að aðferðafræðin hefur skilað framúrskarandi mælanlegum árangri í læsi þvert á tungumál.

Í tilefni af byrjun viku íslenskrar tungu var verkefnið formlega sett á laggirnar í sal Ísaksskóla þar sem Ásmundur Einar Daðason,  mennta- og barnamálaráðherra flutti ávarp og Tryggvi Hjaltason og Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir verkefnastjórar kynntu verkefnið. Barnakór Ísaksskóla söng við tilefnið og samstarfsaðilar verkefnisins innsigluðu vegferðina sem er rétt að byrja.

SMO

Hleypum vindi í segl menntatæknifyrirtækja 

„SA eru afar stoltir aðilar að þessum samfélagssáttmála um læsi og við tökum hattinn ofan fyrir frumkvöðlunum Tryggva Hjaltasyni og Billboard. Mikið ákall er frá skólasamfélaginu og foreldrum að til séu fjölbreyttari og nútímavæddari námsgögn þar sem leikjavæðing kemur við sögu og samfélag okkar á allt undir því að börnin okkar komi sterk út úr skólagöngu sinni. Læsi er þar lykilbreyta. Það er ábyrgðarhlutverk SA að leggja sitt af mörkum til þess að styðja við framfarir í menntatæknilausnum. Á sama tíma blasir við sú varhugaverða staða að sambærileg íslensk skalanleg lausn er ekki fáanleg og varla í sjónmáli,”

-segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA.

Mörg menntatæknifyrirtæki hafi farið af stað en ekki náð fótfestu hér vegna markaðsráðandi stöðu ríkisins.

„Í viku íslenskunnar þegar þjóðin keppist við að hampa hinu ástkæra ylhýra er tilvalið að staldra við og hleypa vindi í segl íslenskra menntatæknifyrirtækja og biðla til yfirvalda að hefja m.a. markviss innkaup á menntatæknilausnum og styðja við alþjóðavæðingu slíkra fyrirtækja.“  

 

Samstarfsaðilar verkefnisins 

  • Samtök atvinnulífsins standa vörð um íslenska tungu og hafa unnið að verkefnum sem ætlað er að styrkja íslenska máltækni. SA eru stoltur stofnaðili  Almannaróms miðstöðvar máltækni, sem ber ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar stjórnvalda. Þá standa samtökin fyrir reglulegri fræðslu og hvatningu til allra fyrirtækja sem vilja styrkja íslenskuna og verjast erlendum áhrifum í gróskumiklu alþjóðaumhverfi.
  • Félag læsisfræðinga hefur veitt stuðning við staðfærslu leiksins og ýmsa ráðgjöf um íslenska málnotkun, sérreglur og fleira.
  • Menntamálastofnun vinnur nú að kennsluleiðbeiningum um notkun leiksins í skólastarfi.
  • Kópavogsbær mun leiða fyrstu skrefin í prófun á íslensku staðfærslunni á nýju ári 2024.
  • Fleiri aðilar munu koma að verkefninu á síðari stigum og verða þeir kynntir sérstaklega. Sem dæmi ætlar Skopp að verðlauna duglega lestrarhesta með frímiðum í Skopp á næstu vikum.

Tímalína verkefnisins

  • Íslensk staðfærsla smáforritsins er á lokametrunum undir verkefnastjórn Tryggva Hjaltasonar og Sigurlaugar Rúnar Brynleifsdóttur.
  • Leikararnir Ilmur Kristjánsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson eru raddir leiksins.
  • Bragi Valdimar Skúlason brýtur nú heilann um íslenskt nafn á Graphogame.
  • Kópavogsbær leiðir fyrstu skrefin í prófun á íslensku staðfærslunni á nýju ári 2024.
  • Í kjölfarið verður íslenska útgáfan gjaldfrjáls og aðgengileg öllum börnum og fjölskyldum á Íslandi á vormánuðum 2024.
  • Samhliða öllu ofangreindu er „stærsta lestrarbók í heimi“ sýnileg með stafalærdómi víðsvegar um höfuðborgarsvæðið á skiltum og strætóskýlum. Eins konar upptaktur að útgáfu leiksins í vor.
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið leggur blessun sína yfir verkefnið og styður með dug og dáð.
  • SA leggur verkefninu lið með yfirgripsmikilli þekkingu og árlegu fjárframlagi.
  • Verkefnið er fjármagnað af Billboard ehf sem hefur greitt fyrir staðfæringu á leiknum ásamt afnotaleyfi til 5 ára, svo að leikurinn geti verið aðgengilegur öllum gjaldfrjálst.
  • Graphogame á enskri tungu verður í boði á Íslandi gjaldfrjálst sem hluti af verkefninu.

You May Also Like