Íslensku myndlistarverðlaunin 2023

March 17, 2023
by
in news
No Comments
Íslensku myndlistarverðlaunin 2023

ÍSLENSKU MYNDLISTAVERÐLAUNIN 2023

Markmið verðlaunanna er að heiðra íslenska myndlistarmenn eða myndlistarmenn sem búsettir eru á Íslandi og vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar en jafnframt veita einstaka myndlistarmönnum mikilvæga viðurkenningu og hvetja til nýrrar listsköpunar. Myndlistarráð stendur að baki myndlistarverðlaunanna.“

Glæsilegt samansafn listamanna fékk tilnefningar í ár í flokki „Myndlistarmaður ársins“ og „Hvatningarverðlaun“. Opið var fyrir innsendar tillögur í ársbyrjun en sérstaklega skipuð dómnefnd ákvað tilnefningar og verðlaunahafa.

 

MYNDLISTARMAÐUR ÁRSINS

Hrafnkell Sigurðsson hlaut titilinn Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Upplausn í Auglýsingahléi Billboard 2022. Aðrir tilnefndir í þeim flokki voru Finnbogi Pétursson fyrir sýninguna Flói, Ingibjörg Sigurjónsdóttir fyrir sýninguna De rien og Rósa Gísladóttir fyrir sýningarnar Loftskurður og Safn Rósu Gísladóttur.

Opnuðu nýja leið til að miðla myndlist

„Árið 2022 sáu allir Reykvíkingar þegar óræðar hreyfimyndir birtust á 450 skjáum úti um alla borg, í strætóskýlum og á stórum auglýsingaskiltum. Á skjáunum birtust síbreytilegar þokur sem mynduðu stundum form og mynstur sem leystust þó jafnóðum upp aftur.

Þetta var ekki bilun heldur verkið Upplausn eftir Hrafnkel Sigurðsson, unnið upp úr stórum, samsettum ljósmyndaverkum frá 2018 þar sem ótal örsmáir fletir raðast saman í þokukennda mósaíkmynd.

Það er mat dómnefndar að með því að nýta auglýsingaskiltin hafa Hrafnkell og fleiri opnað nýja leið til að miðla myndlist en Hrafnkell sýni líka að skiltin eru ekki bara eins og fletir til að fylla út í, heldur er hægt að nýta þau sem miðil með öllu sem tæknin býður upp á og koma skilaboðunum úr sýningarsalnum út í hversdagslegan veruleika okkar þar sem við þurfum mest á þeim að halda,“ segir meðal annars í umsögn frá dómnefnd.

You May Also Like