Graphogame – Lestrarleikur

September 6, 2024
by
in news
No Comments
Graphogame – Lestrarleikur

Nú eru krefjandi tímar þar sem bróður partur samskipta og upplýsinga um heiminn er kominn í símana okkar. Það er mikilvægara en nokkurntíman áður að þjálfa börnin okkar upp í að hugsa sjálfstætt og rökrétt. Þau verða að hafa þekkingu og kunnáttu til að greina á milli þess sem er rétt og rangt. Upplýsingarnar sem streyma í gegnum snjalltækin okkar eru því miður alls ekki alltaf settar fram af hlutlausum aðilum sem vilja koma uppbyggjandi sannleik á framfæri. Þó slíkt leynist vissulega inn á milli.

Til að öðlast möguleika á að geta greint þarna á milli og hugsa málin rétt er grunnskilyrði að geta lesið sér til gagns. Lestur færir okkur svo margt. Hvort sem við lesum skáldsögur, barnabækur eða eitthvað annað þá færir lesturinn okkur rökskilning, tilfinningagreind og svo margt annað sem lærist án þess að þurfa að upplifa það sjálfur.

Ég veit um fátt betra en að setja mér markmið og ná því. Hvort sem markmiðið er stórt eða smátt þá er alltaf jafn gaman að ná settu marki og það byggir upp sjálfsmyndina. Þó ég hafi átt auðvelt með  að lesa þá get ég vel ímyndað mér hvernig það er að fara í gegnum 10 ára skólagöngu og vera allan tímann í vandræðum með að skilja námsefnið. Skólagangan er alveg nógu erfið án þess að skilja ekki allt námsefnið. Ég er nokkuð viss um að barn sem nær ekki grunnárangri í lestrarhæfni sé með verri sjálfsmynd en það væri annars með.

Við hjá Billboard höfum verið svo heppin allt frá upphafi að eiga frábæra viðskiptavini. Hvort sem það er í formi leigusala, auglýsingastofa, birtingahúsa eða beinna viðskiptavina þá hafa samskiptin og samböndin þroskast hratt og verið ánægjuleg. Í krafti þessara viðskiptasambanda treystum við okkur til að fjárfesta í Graphogame – Lestrarleik. Graphogame er finnskur tölvuleikur sem hjálpar börnum að komast yfir fyrstu þröskuldana í lestri. Með því að tengja saman hljóð og stafi ásamt allskonar öðrum verkefnum leiðir leikurinn börnin áfram þannig að þau eigi auðveldara með að læra stafina. Koll af kolli öðlast þau þannig grunnfærni í lestri. Fjárfestingin fólst í því að greiða þróunargjöld til finnska fyrirtækisins, ráða verkefnastjórann Tryggva Hjaltason, ráða Sigurlaugu Rún Brynleifsdóttur til að íslenska leikinn, ráða raddleikarana Ilm Kristjáns og Þorvald Davíð og greiða svo árlegt gjald þannig að allir geti spilað leikinn frítt.

Leikurinn hefur verið þýddur á fjölmörg tungumál og allstaðar virkað virkilega vel. Á vormánuðum 2024 var gerð rannsókn í Kópavogsbæ þar sem öll börnin í fyrsta bekk tóku próf í leiknum. Helmingur þeirra spilaði svo leikinn í nokkrar vikur og samanburðarhópurinn spilaði ekki. Báðir hópar fengu hefðbundna íslensku- og lestrarkennslu á tímabilinu. Báðir hópar tóku svo próf rétt fyrir skólalok og þannig var hægt að bera saman hvernig leikurinn nýttist þeim sem fengu að spila. Niðurstöður úr rannsókninni sýna að leikurinn eykur árangur barna í lestrarnámi sínu talsvert. Það sem er kannski fallegast er að hann virkar best fyrir þau börn sem eru verst stödd. Rannsóknin gekk einmitt aðallega útá að athuga hvort leikurinn væri nógu vel íslenskaður til að skila tilætluðum árangri. Það er skemmst frá því að segja að Sigurlaug ( Silla) og Tryggvi hafa gert þetta af einstakri fagmennsku og leikurinn er virkilega vel staðfærður á íslenska tungu.

Nú er búið að gefa leikinn út bæði á IOS fyrir Apple tæki og Android fyrir Samsung og aðra Android síma. Allir sem vilja spila hann á íslensku geta nú náð í hann frítt og spilað næstu fimm árin.

Vonir okkar standa til þess að þetta megi hjálpa öllum börnum að ná góðum undirstöðum við að læra að lesa á íslensku og hjálpi þeim við að komast yfir erfiðasta hjallann. Auðvitað mun leikurinn ekki breyta öllu einn og sér. Við þurfum aukna árvekni foreldra en kannski er þetta einmitt tólið sem foreldra vantaði.

Í dag er mér þækklæti efst í  huga fyrir viðskiptavini okkar sem og þá sem ákváðu að styrkja verkefnið með okkur sérstaklega. En það er auðvitað erfitt fyrir eitt fyrirtæki að gera svona hlut algjörlega á eigin spýtur.

Þeir sem hafa styrkt okkur sérstaklega og eru þannig samstarfsaðilar okkar í verkefninu eru:

SAMTÖK ATVINNULÍFSINS, SKOPP, TÆKNIVÖRUR, EPAL, VERKÍS, ORIGO, SECURITAS, NESPRESSO, LAZYTOWN

Birgir Örn Birgisson fyrrverandi stjórnarformaður Billboard ehf á mikinn heiður skilinn fyrir að hafa komið þessu verkefni af stað. Hann lagði áherslu á að þetta yrði að verða að veruleika hvernig sem við myndum finna útúr því.

Vonandi hefur okkur saman tekist að leggja með þessu eina fjöl í átt að enn betra samfélagi.

Vésteinn Gauti Hauksson
Framkvæmdastjóri

Billboard ehf

Graphogame fór á fyrsta degi auglýsingaherferðar á toppinn í Appstore.

You May Also Like