Það var undir lok ársins 2020 að listamaðurinn Cozyboy nálgaðist Billboard með það í huga að sýna verk sín á led skjáum borgarinnar. Úr varð að Cozyboy sýndi verk sín á milli auglýsinga á led skiltum Billboard, en fræjunum sem síðar urðu að Auglýsingahléi Billboard var þarna sáð.
Strax árið eftir var ákveðið að taka hugmyndina lengra og hafa algert auglýsingahlé í nokkra sólarhringa samfleytt í blábyrjun komandi árs. Efnt var til opinnar samkeppni og óskað eftir tillögum frá listamönnum að verki eða sýningu sem taka myndi yfir alla stafræna fleti fyrirtækisins 1.-5.janúar 2022.
Til að tryggja faglegt utanumhald fékk stjórn Billboard Y Gallerý til að sjá um framkvæmd samkeppninnar og listræna ráðgjöf.
Ákveðið var að greiða listamanninum 1m.kr. fyrir vinningsverkið og að sýningartíma loknum færa Listasafni Reykjavíkur það að gjöf.
Á haustmánuðum 2021 fór valnefnd skipuð fulltrúa Billboard, Y gallerýs, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Listasafns Reykjavíkur, yfir umsóknir og valdi vinningstillöguna. Fyrir valinu varð Hrafnkell Sigurðsson með sýninguna Upplausn.