Auglýsingahlé

Auglýsingahlé Billboard

Það var undir lok ársins 2020 að listamaðurinn Cozyboy nálgaðist Billboard með það í huga að sýna verk sín á led skjáum borgarinnar. Úr varð að Cozyboy sýndi verk sín á milli auglýsinga á led skiltum Billboard, en fræjunum sem síðar urðu að Auglýsingahléi Billboard var þarna sáð.

Strax árið eftir var ákveðið að taka hugmyndina lengra og hafa algert auglýsingahlé í nokkra sólarhringa samfleytt í blábyrjun komandi árs.  Efnt var til opinnar samkeppni og óskað eftir tillögum frá listamönnum að verki eða sýningu sem taka myndi yfir alla stafræna fleti fyrirtækisins 1.-5.janúar 2022.
Til að tryggja faglegt utanumhald fékk stjórn Billboard Y Gallerý til að sjá um framkvæmd samkeppninnar og listræna ráðgjöf.
Ákveðið var að greiða listamanninum 1m.kr. fyrir vinningsverkið og að sýningartíma loknum færa Listasafni Reykjavíkur það að gjöf.
Á haustmánuðum 2021 fór valnefnd skipuð fulltrúa Billboard, Y gallerýs, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Listasafns Reykjavíkur, yfir umsóknir og valdi vinningstillöguna. Fyrir valinu varð Hrafnkell Sigurðsson með sýninguna Upplausn.

Næstu mánuði vann Hrafnkell, ásamt Y gallerýi og tæknisviði Billboard, að nánari útfærslu Upplausnar. Sýning Hrafnkels fór svo í loftið þegar nýtt ár gekk í garð 1.janúar 2022 kl.00:01
Sýningin vakti mikla athygli og strax á nýársdagsmorgun voru vangaveltur um bilaða auglýsingaskjái á kreiki á helstu fréttamiðlum landsins.

Ekki leið á löngu þar til að skýring fékkst á málinu, skjáirnir voru ekki bilaðir heldur blasti við vegfarendum ferðalag Hrafnkels Sigurðssonar út að endimörkum alheimsins.  Verkið hans, Upplausn (e. Resolution), færði áhorfendur lengra út í himingeiminn en áður hafði sést.  Enda er verkið í grunninn ferðalag inn í einn pixel ljósmyndar úr Hubble geimsjónaukanum sem fangar fjarlægasta stað himingeimsins sem mannkynið hefur séð.

Auglýsingahlé Billboard 2022 fékk mikla athygli og var almenn ánægja hjá borgarbúum með framtakið, enda líklega hér á ferðinni fjölsóttasta listasýning Íslandssögunnar.  Það jók enn á ánægju aðstandenda Upplausnar þegar sýningin hreppti aðalverðlaun íslensku myndlistarverðlaunanna.  Í umsögn dómnefndar kom m.a. fram: ,,Það er mat dómnefndar að með því að nýta auglýsingaskiltin hafa Hrafnkell og fleiri opnað nýja leið til að miðla myndlist en Hrafnkell sýni líka að skiltin eru ekki bara eins og fletir til að fylla út í, heldur er hægt að nýta þau sem miðil með öllu sem tæknin býður upp á og koma skilaboðunum úr sýningarsalnum út í hversdagslegan veruleika okkar þar sem við þurfum mest á þeim að halda.”

Að sýningartíma loknum var verkið afhent Listasafni Reykjavíkur til eignar.

Samskonar samkeppni var haldin á haustmánuðum 2022 vegna Auglýsingahlés Billboard 2023. Fyrirkomulagið var hið sama, valnefnd skipuð fulltrúum sömu aðila skyldi velja verk sem skyldi sýnt á öllum stafrænum flötum Billboard, sem þarna voru orðnir um 450 talsins, 1.-3. janúar 2023.

Að þessu sinni var það tillaga Sigurðar Ámundasonar, Rétthermi, sem varð hlutskörpust. Hún samanstóð af teikningum hans af merkingarlausum vörumerkjum.  Listamaðurinn lýsti verkum sínum í tilkynningu:

,,Póst-strúktúralismi, óræðni og efi eru undirstöður verkanna.  Merkingarlaus vörumerki sem túlka ekkert en líta stórt á sig, bera númer og íslenska stafi í handahófskenndri röð.  Tákn sem tákna tákn, sem snúast um sjálf sig, leiðarvísar sem í raun leiða ekki neitt.”  Rúv benti svo á að ,,verk Sigurðar voru unnin með kúlupenna og trélitum sem er sjaldséður miðill í stafrænum auglýsingum”